10.12.2009 | 12:41
Lesið í Jesaja spámanni
Ég byrjaði daginn með að mála einn vegg bláan og sest nú niður við bloggið eftir að hafa lesið smávegis í Jesaja spámanni sem kom mér heldur betur til að hugsa. Þessi merkilegi spámaður sem 600 árum fyrir Krist spáði um Jesú, fæðingu hans, fórn hans á krossi og allt annað sem síðar kom svo fram nákvæmar en hægt er að hunsa eða láta sem skipti ekki máli. En mér kom einnig í hug að nú þegar í hönd fer sá tími sem margir týna sér í veraldlegu lífsgæðakapphlaupi, sækjast eftir að njóta allslags gæða sem kaupa má í búðum og halda hátíð mikla með tilheyrandi skrauti og íburði. Þá er því miður það innihald sem kristnir telja sig hafa gefið þessari ártíð oft varla nema á yfirborðinu. Jesús fæddist vissulega ekki á þessum árstíma og hvergi er minnst á það að halda eigi upp á fæðingu hans, en þessum sið var komið á og átti að vera sameiginlegur kristnum til að minnast fæðingar frelsarans. En það er eins og svo margt sem menn taka upp á og er ekki boðað af Guði né fyrir um mælt, það þynnist út og fer óneitanlega að hafa á sér yfirbragð hjáguðadýrkunar og græðgi. Mér er sama hvort við höfum "kókakóla" jólasveina eða druslulega íslenska kotkarlasveina, allt er þetta óttalegur hégómi til þess eins að leiða athyglina frá hlutum sem raunverulega hafa gildi. Menn eru svo afvegaleiddir í trú og sannleika að varla er möguleiki að sýna þeim framá hvað heilög Ritning segir. Það stendur skýrt í þeirri bók, svo tekið sé dæmi, að dánir sofa, þeir fara ekki neitt, vita ekki neitt. Þeir sofa þar til er Guð vekur upp dána fyrir frelsarann sem kemur aftur í fyllingu tímans. Við viðurkennum þetta í trúarjátningu kirkjunnar, "Og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða", eru þetta meiningarlaus orð eins og svo margt annað sem nú er viðhaft? Já það mætti skrifa langan pistil um þessi mál og margir mundu æsa sig upp og telja þetta ofsatrúaráróður. En það gerir ekkert til, ég hef fundið mitt traust á skapara mínum og treysti honum. En til fróðleiks og umhugsunar set ég hér beina tilvitnun úr áðurnefndum Jesaja.
Guð einn 6Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég. 7Hver er sem ég - hann segi frá því og sanni mér það - frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun! 8Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.
Háðyrði um hjáguðadýrkun 9Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar. 10Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði? 11Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, - látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum. 12Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann. 13Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi. 14Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau. 15Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því. 16Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn." 17En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"
18Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki. 19Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!" 20Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"
Já ég mæli með að fólk lesi í Jesaja frá 41. kafla allavega og áfram út 44.kafla. Það er umhugsunarefni. Á hvað trúa börn í dag? Jú mjög mörg trúa á jólasveininn og setja skóinn út í glugga. Ósköp sætt og meinlaust en því miður er oft lítið annað með, engin Jesús sem elskar og kennir kærleika og réttlæti. Ef ekki væri langt komið með að ryðja kristni út úr skólum væri kannski von fyrir þá sem eru í vandræðum með grunnviðmið í siðfræði. Það kynni að vera hægt að kenna út frá kristnum kærleiksgildum hversvegna einelti er algjörlega óásættanlegt. En nei, mennirnir vilja eiga allan heiður af siðfræði og finnst fínna að vitna í illskiljanlega heimspeki sem að sumu leyti var skrifuð af stórundarlegum furðufuglum, sem nú til dags hefðu jafnvel verið taldir vafasamir. Rétt eins og þegar Darvin kom fram með sínar kenningar, sem hann sjálfur var jafnvel ekki alveg öruggur með. Það var látið eins og stóri sannleikurinn væri fundinn og síðan hefur hægt og örugglega öllu tali um sköpun verið ýtt út og telst í besta falli barnaskapur að trúa slíku í dag. Vísindamenn með feita styrki geta í eyður sem eru stærri en bankahrunið, setja saman beinagrindur úr einni lítilli flís og fullt af hugmyndum. Minnir mig oft á nýju fötin keisarans. Og allt þetta sá Guð fyrir að mundi verða þegar maðurinn fór að líta svo stórt á sjálfan sig. Já hvað gerist þegar maðurinn fer að líta of stórt á sjálfan sig? Góð spurning. Hann fer að heimta ofurlaun fyrir ímyndaða "ofurábyrgð", hann fer að stinga undan öllu sem hann getur komið höndum yfir og liggja á því eins og Jóakim önd. Hann tapar sér í að fá meira og meira en gleymir þeim sem þjást. Hvar stendur þetta eiginlega?Jú mikið rétt í 2. Tímóteusbréfi. 3. kafla." Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. 2Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, 3kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, 4sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðar fullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. 5Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!
Ég læt þetta nægja að sinni. En óska öllum þess að minnast þess að við erum smá og máttvana þegar náttúran lætur af sér vita og eitthvað meiriháttar fer í gang. Ofurlítil auðmýkt og hugsun um þann sem öllu ræður, getur ekki skaðað. Farið varlega í kapphlaupinu og leitið hans ríkis og réttlætis núna.
Um bloggið
Þórdís Ragnheiður Malmquist
Tenglar
Mínir tenglar
- Boðunarkirkjan Kirkja sem boðar Guðs orð óbreytt og heldur Hvíldardag Guðs þann sem hann helgaði, 7. daginn. Er í Hlíðarsmára 9 3hæð.
- Boðunarkirkjan Sjálfstæð kristin kirkja sem heldur hvíldardag Guðs
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.