11.12.2009 | 14:47
Fyrirgefning
Ég fékk óbeint löðrung núna rétt áðan, í gegn um símann minn. Málið átti sér forsögu eins og flest annað. Ég vinn á við að hlynna að öldruðu fólki og líkar það vel. Vinnustaðurinn er um 25 mínútna akstur frá heimili mínu, nánar tiltekið í öðru bæjarfélagi á Suðurnesjum. Þegar ég hóf störf fyrir einu og hálfu ári var eitt af plús hlutunum sá að starfsfólki úr mínu bæjarfélagi væri ekið til vinnu í leigubílum frá Hreyfli. Þetta var hið besta mál og flestir bílstjórarnir hinir almennilegustu menn. Einn er meira að segja líklega trúaður og var með biblíuvers límt á mælaborðið hjá sér. Ég var mjög sátt með það og við töluðum oft saman um daginn og veginn. Já mjög almennilegur maður í alla staði. En svo kom hrunið. Allur akstur var tekin af okkur í upphafi árs. Sjúkraliðar kærðu, þetta var inni í þeirra kjarasamningi. Þeir unnu málið og fengu akstur á ný. En enginn annar. Ég er félagsliði og þar með varð ég nú að sjá um minn akstur sjálf. Oft er ég á sömu vakt og stöllur mínar og það gerist því að ég fæ að sitja í hjá þeim og allt gott um það að segja. En eitt sinn varð mér á í messunni. Kemur það ekki fyrir okkur stundum? Ég gáði á vaktatöfluna og sá að bíll mundi fara til að sækja konu á næturvakt en ég átti að fara á morgunvakt. Ég hringdi og spurði stúlkuna á leigubílastöðinni hvort hann mundi kannski geta leyft mér að sitja í á leiðinni til að sækja næturvaktina. Það reyndist ekkert mál og ungur maður með bros á vör sagði að þetta væri í besta lagi, þegar ég spurði hann um leið og ég settist í bílinn. Svo leið vaktin og leigubíll kom með konu á kvöldvakt og hinkraði við eftir mér sem kom út tvær mínútur yfir lokatíma vaktar. En hann hafði beðið um stund vegna þess að hann var fremur snemma í því og var orðin argur og pirraður á að þurfa að bíða eftir mér. Hann upphóf því gagnrýni á meinta misnotkun mína á að fá að sitja í bílnum til baka. Ég reyndi að verja mig og sagði að ungi maðurinn sem ekið hefði með mig um morguninn hefði sagt að þetta væri ekkert mál. "Já hann hefur bara látið plata sig" svaraði hinn pirraði leigubílstjóri og var þungt í honum. Hann hélt áfram að argast yfir þessu og talaði um að hann hefði getað hugsanlega fengið túr strax eftir að hafa skilað af sér farþeganum í stað þess að bíða eftir mér. Mér er spurn af hverju var hann að bíða eftir mér , fyrst honum bar engin skylda til þess að aka mér heim? Fyrst þetta var svona mikið stórmál, hvað var hann þá að taka mig með? Eftir smástund fór mér að sárna verulega og ég sagði honum að mér líkaði ekki þessi tónn og hann skyldi bara stöðva bílinn og setja mig út þarna á miðri leið. Ég kærði mig ekkert um svona ásakanir og leiðindi og hann skyldi bara reyna að fá sér þennan túr, ég sæi um mig sjálf og svo skellti ég hurðinni um leið og ég fór út úr bílnum. Ekki af neinu svaka afli, en skellti samt. Hann skrúfaði niður rúðuna og "þakkaði" mér fyrir að eyðileggja bílinn sinn. Ég svaraði sárreið til baka að ég hefði ekkert eyðilagt bara skellt hurðinni. Hann hrópaði þá um leið og hann fór "Guð blessi þig". Já það er nú svo. Hvað meinti hann með því? Því framhaldið er ekki í samræmi við það. Ég fékk manninn minn til að sækja mig og fór beint niður á skrifstofu þeirrar stofnunar sem ég vinn hjá. Ég var enn reið og sár, þó mest fyrir að vera ásökuð um að reyna að plata saklausan mann til að taka mig með um morguninn. Ég hafði ekkert slíkt í huga og legg ekki í vana minn að plata fólk yfirleitt. Ég ræddi við starfsmannastjóra sem skýrði fyrir mér að svona væri þetta, aðeins sjúkraliðar hefðu akstur, sem ég reyndar vissi, og einnig að það væri alfarið í valdi bílstjóranna hvort við hinar fengjum að fljóta með. Jú ég skildi það. Og líka það að sem sagt bílstjórarnir hefðu lokaorð um hvort þeir tækju aðra með sem vinna á téðum stað þegar þeir eru hvort sem er að aka með sjúkraliða. Skömmu eftir að þessi leiðindaatburður átti sér stað hitti ég á umræddan bílstjóra og gekk að bílnum og rétti honum hönd til sátta og baðst afsökunar á að hafa skellt bílhurðinni í sárindum mínum. Hann tók vel í það og fór að útskýra málin og einnig það að þegar sjúkraliðar væru á vakt og fengju akstur þá væri allt í lagi að fá að vera með. Ég sagðist gera mér grein fyrir því og þekkti vel reglurnar. Ég stóð í þeirri meiningu að allt væri orðið gott á milli okkar og mér fyrirgefið, ekki síst eftir að hann hafði jú kastað á mig "blessun Guðs" við síðustu samskipti okkar. En núna, þegar veður er hættulega hvasst og ég á að fara á kvöldvakt ásamt tveim sjúkraliðum, sem fá akstur. Hvað gerist þá? Ég er ekki að ýkja, það komu aðvaranir í útvarpinu núna áðan um hvassviðri á Reykjanesbrautinni. Þá er nú gott að sitja í bíl með öðrum og hafa vanan bílstjóra. En þegar ég hringdi til að vita hvort ég mætti sitja í og hitti þá á þennan fyrrum "vin" minn, þá var svarið "nei". "Ertu að grínast"? spurði ég,"nei" svaraði hann. Nú spyr ég hvar var þessi fyrirgefning og sátt? Ég tek það aftur fram að ég sagði ekkert dónalegt við hann, sparkaði EKKI í bílinn hans, ég sagði bara að hann skildi setja mig út og ná sér í túr. En svona er nú lífið. Hvað dugði að rétta fram hönd og biðjast afsökunar á sínum tíma. Hvað meinti hann með "blessun"sinni? Og það segi ég satt að hann hefur ekki þurft að fyrirgefa mér nema einu sinni en eigum við ekki að fyrirgefa aftur og aftur, það sagði Kristur að minnsta kosti er hann svarði spurningu lærisveina sinna varðandi hversu oft þeir ættu að fyrirgefa. Hvað er þá fyrirgefning? Er hún bara í orði en ekki í verki? Hvernig fyrirgefum við í dag. Getum við fyrirgefið "hrunið"? Getur það gert okkur betri? Ég fer í vinnuna mína í dag á eigin bíl og bið Guð að vernda mig í vondu veðri. Ég bið Guð líka um að taka burt sárindin sem komu eftir þetta "neikvæða" símtal. Nú þarf ég að geta fyrirgefið skort manns á raunverulegri blessun og fyrirgefningu. Aðeins Guð getur gefið mér vilja til þess, ég er ekki svo fullkomin að hafa það innbyggt. Skammdegisþunglyndi gerir það ekki léttara, það er svo þunnur strengur sem heldur manni stundum uppi. En Guð huggar og gefur vit og vilja. Ég sendi ykkur öllum bestu óskir um vilja til að fyrirgefa náunga ykkar, aftur og aftur.
Um bloggið
Þórdís Ragnheiður Malmquist
Tenglar
Mínir tenglar
- Boðunarkirkjan Kirkja sem boðar Guðs orð óbreytt og heldur Hvíldardag Guðs þann sem hann helgaði, 7. daginn. Er í Hlíðarsmára 9 3hæð.
- Boðunarkirkjan Sjálfstæð kristin kirkja sem heldur hvíldardag Guðs
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Þetta gerist stundum, en þú baðst manninn fyrirgefningar, ef þú hefur fyrirgefið honum þá ert þú í góðum málum. Matteus 6:14-15 segir: Ef þér fyrirgefið mönnum misgjörðir þeirra, þá mun og faðir yðar himneskur fyrirgefa yður. (Guð hefur fyrirgefið þér) 15. versið segir: En ef þér fyrirgefið ekki öðrum, mun faðir yðar ekki heldur fyrirgefa misgjörðir yðar.
Það segir líka í Efesusbréfinu 4:31-32 látið hvers konar beiskju, ofsa, reiði, hávaða og lastmæli vera fjarlægt yður og alla mannvonsku yfirleitt. Verið góðviljaðir hver við annan, miskunnsamir, fúsir til að fyrirgefa hver öðrum, eins og Guð hefur í Kristi fyrirgefið yður.
Ekki láta þennan mann ræna þig gleðinni, biddu fyrir honum og þakkaðu Guði fyrir þennan mann að hann geti á settum tíma endurfæðst. Guð blessi þig og varðveiti í Jesú nafni. Amen.
Aðalbjörn Leifsson, 13.12.2009 kl. 17:08
Takk fyrir að minna mig á þekkt vers, ég er svo sannarlega búin að biðja og láta biðja fyrir þessu öllu. Það hvarflar þó að mér að fyrst ég þarf að keyra sjálf væri bar ágætt að bjóða vinnufélögum mínum að sitja í hjá mér þegar við erum saman á vakt. Hver getur sagt eitthvað við því?
Þórdís Ragnheiður Malmquist, 14.12.2009 kl. 13:18
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.