Dásmleg upplifun

Ég fékk óvænta gjöf frá elskulegri dóttur minni um daginn. Hún færði mér tvo miða á Frostrósartónleika, ég verð alveg orðlaus og klökk. Við hjónin fórum í gær og það var mögnuð upplifun. Auglýsendur segja að jólin byrji með Frostrósum. Ég get tekið undir að allavega meðan þessi stund varði, gleymdi maður öllu öðru. Ég vildi óska að þetta væri samt svona einfalt með jólin. Þetta á að vera friðarhátíð og gleðitími fyrir sem flesta.  Ég upplifi að ég vil bara komast í gegn um þessa ártíð án þess að hafa áhyggjur af því hvort jólagjafirnar falli öllum stóra hópnum af barnabörnum í geð, eða hvort ég geti haldið skemmtilegt mataboð með góðum mat fyrir börnin okkar sem eru sitthvor hópurinn. Maður vill gera vel og reynir og yfirleitt gengur allt upp en mikið vildi ég vera laus við þennan skammdegiskvíða og myrkur. Ég veit raunar að besta lausnin væri að  setjast niður með heilaga Ritningu og vera með Guði í íhugun um stund og þakka fyrir allt sem ég þó hef. Já það er það eina rétta. Málið er bara að þó að maður viti hvert á að fara, þá gefur maður sér oft ekki tíma til þess.   Ég á til dæmis þennan bjarta dagsljósa lampa sem á að hafa svo góð áhrif á heilann og vinna gegn þunglyndinu, ég bara kveiki svo sjaldan á honum, þykist ekki hafa tíma. Erum við ekki svolítið mikið svona, mörg okkar? Ég held ég taki í öxlina á mér og fari að hlusta á Frostrósir og hætti þessu skammdegistali.  Ég er rík og hef nóg af öllu þannig séð.  Hvers vegna að hafa áhyggjur af ógreiddum reikningum sem allt í einu breyttust í risareikninga? Ekki breytti ég þeim. Og þó svo að húsið mitt, sem við byggðum með ótalmörgum vinnustundum, sé kannski orðið verðminna en lánin, (þori ekki að gá) þá hvað með það?  Ég tek þetta ekki með mér þegar ég fer. Stundum langar mig til að einfalda allt og minnka í lífi mínu svo það sé ekkert til að hafa áhyggjur af. En svo sé ég að það er nú gaman að hafa pláss fyrir barnabörnin og leyfa þeim að gista stundum. Ég þekki fólk sem hefur flutt í Búmannaíbúðir og minnkað við sig og finnst oft vanta pláss fyrir gesti. Það ætti að vera sjálfsagt mál þegar byggt er fyrir eldri þegna landsins, sem enn geta séð um sig sjálfir, að gera ráð fyrir að þá langi til að fá yngstu börnin í fjölskyldunni í heimsókn öðru hvoru.      Vona að húsið mitt dugi fyrir mátulegri íbúð eftir nokkur ár og þessi þjóð sjái breytt viðhorf.       Ég vinn við að hlú að öldruðu fólki, sem flest átti stór hús eða góðar íbúðir, en nú þarf að sætta sig við að búa í einu herbergi með öðrum herbergisfélaga og fáa fermetra til ráðstöfunar. Er það svona sem við viljum launa fyrir ævistarfið þeirra?  Þeim líður ekkert of vel með þetta fyrirkomulag en láta sig hafa það og kvarta sjaldan.  Ég nýt mín best þegar ég er í vinnunni, því þá finn ég að ég get gefið af mér. Að strjúka yfir hár og vanga þess lífsreynda fólks sem man ekki stundum hvar það á heima, að glettast og spila létta tónlist, taka varlega dansspor og faðma brothættan líkama manneskju sem er búin að skila áratugum af vinnu og striti til að framfleyta sér og sínum. Þetta gerir mér líka gott því ég veit að það gerir mikið fyrir fókið  mitt að finna að við sem vinnum með því þykir vænt um það og gerum þetta ekki eingöngu launanna vegna. Launin vita allir sem vilja vita að eru skelfilega lítil . Ég hitti konu sem hefur lokið ævistarfi sínu við aðhlynningu eldri borgara og hún sagði mér að hún fékk rétt um 120 þúsund krónur útborgað af síðustu launum frá heilbrigðistofnuninni. Þá eru það strípuð laun án vaktaálags og búið að rífa skatta og gjöld af. Hvernig þætti sumum með "víkingablóð" í æðum að fá það í vasann, punktur?  Já Guð einn getur stöðvað þessa vitfirringu sem menn hafa skapað. Hann er sá sem hefur bent á þessar staðreyndir um hegðum mannsins og afhjúpar syndir okkar með björtu ljósi sannleikans. Hann sem er Vegurinn , sannleikurinn og lífið.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rósa Aðalsteinsdóttir


Christian Glitter by www.christianglitter.com

Guð gefi þér gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Þakka samfylgdina á blogginu

Kær kveðja/Rósa

Rósa Aðalsteinsdóttir, 26.12.2009 kl. 01:47

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórdís Ragnheiður Malmquist

Höfundur

Þórdís Ragnheiður Malmquist
Þórdís Ragnheiður Malmquist

Félagsliði í fullri vinnu við hjúkrun aldraðra. Starfa við öflun efnis og dagskrárgerð, þýðingar og annað sem tengist kirkjunni minni sem er Boðunarkirkjan Hlíðarsmára 9. Sjá útvarp boðun FM105,5 Reykjavík0g 109,4 á Akureyri. Einnig  <bodunarkirkjan.is> Hef áhuga á andlegum efnum og boðorðunum 10 eins og þau eru í Ritningunni, sérstaklega því 4.Elska ferðalög og ósnortna náttúru. Bestu stundirnar eru með barnabörnunum og svo vinum sem hafa stórt hjarta.

 

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Myndaalbúm

Nýjustu myndir

  • á hippaballi Ketilási 2010
  • Sumarkvöld að Hraunum
  • Miklavatn í júlí
  • Stíflan
  • Vigdís og Nói

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband