21.1.2012 | 20:52
Hvíldardagurinn.
Ég sé að sumir velta fyrir sér hvenær við höldum hvíldardaginn í Boðunarkirkjunni og er ljúft að svara því. Ég sé líka að sumir eru harla fljótir að draga rangar ályktanair um hann. Þeim til glöggvunar vil ég segja að hvíldardagurinn hefst við sólarlag á föstudegi eða föstudagskvöldi, þessvegna er sá dagur kallaður aðfangadagur hvíldardagsins. Síðan endar hvíldardagurinn við sólarlag á laugardegi "Sabatt" og er auðvitað nokkuð langur tími hér á sumrin, en þá er gjarnan miðað við miðnætti eða klukkan sex að kvöldi sem er algengur sólarlagstími sunnar á hnettinum. Þetta er svosem ekki neitt til að velta sér mikið uppúr heldur hitt að viðurkenna þennan dag sem hin upphaflega og eilífa hvíldardag Drottins, sem settur var og helgaður af Skaparanum sjálfum. Ekkert flóknara en það. Samt er svo undarlegt að þegar til dæmis þeir sem hingað hafa flutt af öðrum trúarbrögðum, t.d múslimar, halda sínar trúarhátíðir og föstudaga þá þykir það mjög virðingarvert og merkilegt hjá mörgum sem standa fyrir utan, jafnvel sýnd mikil virðing. En þegar trúfélög sem fylgja upprunalegum reglum um helgidag hvíldardagsins, sjöunda dagsins í kristinni kirkju þá eru þeir jafnvel taldir sérsinna eða skrítnir. Er það ekki undarlegt að þeir fái neikvæðari umfjöllun hjá sumum en þeir sem teljast ekki til kristinna. Hvað er það að segja okkur? Eitthvað sagði Kristur um það, eða hvað? Matteus 5. 10: Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki. Síðara Tímóteusarbréf 3. 12: Enda verða allir ofsóttir sem lifa vilja guðrækilega í Kristi Jesú. Í fyrstu Mósebók 15. 13 er spádómur sem sannarlega rættist vegna þess að breyskir menn kusu að óhlýðnast Guði.: Þá sagði Drottinn: Það skaltu vita að niðjar þínir munu lifa sem landlausir aðkomumenn í landi sem þeir eiga ekki. Þeir munu þrælkaðir verða og þjáðir í fjögur hundruð ár. En Móse fékk það hlutverk að leiða þá þaðan þó ekki gengi það þrautalaust að venja þá af heiðinni skurðgoðadýrkun eftir svo langt mótunarskeið í útlegðinni. Nýja testamenntið minnist á þennan spádóm í Postulasögunni 7.kafla. 6Guð sagði að niðjar hans mundu búa sem aðkomumenn í ókunnu landi og verða þjáðir og þrælkaðir í fjögur hundruð ár. 7En þjóðinni, sem þrælkar þá, mun ég refsa, sagði Guð, og eftir það munu þeir fara þaðan og þjóna mér á þessum stað.
Þetta er úr ræðu Stefáns og þeir sem lesið hafa vita að prestarnir þoldu ekki að heyra þennan sannleika sem hann mælti og grýttu hann til bana í kjölfarið. Já það getur verið óvinælt að segja hlutina hreint og klárt út og líklega, ef einhverjir lesa þessar línur sem eru mjög ósammála mér, verður eldur laus einhversstaðar, en ég stend með Jesú sem er og verður Frelsari minn og málsvari um eilífð.
Eins og stendur í boðorðunum í annarri Mósebók 20. kafla vers 3-17. Þá er 4. boðorðið um hvíldardaginn. Minnstu þess að halda hvíldardaginn heilagan. sex daga skalt þú erfiða og vinna allt þitt verk, en sjöundi dagurinn er hvíldardagur helgaður Drottni, Guði þínu.. og síðar stendur: því að á sex dögum gjörði Drottinn himin og jörð, hafið og allt sem í þeim er, og hvíldist sjöunda daginn, fyrir því blessaði Drottinn hvíldardaginn og helgaði hann.
Svo liðu aldir og Jesús kom , Guð í tilveru manns til að frelsa þá sem honum vilja trúa og hlýða. nokkrum öldum síðar gerði biskupinn í Róm og keisarinn með sér samkomulag um að þeir sem dýrkuðu sólaraguðinn og frömdu viðurstyggilegar fórnarathafnir með ungbörnum til sólarguðsins, þessir háttsettu menn ákváðu að gera helgidegi sólguðsátrúenda jafn hátt undir höfði og hinum upprunalega helgidegi sem Guð sjálfur hafði helgað frá fyrstu tíð. Eins og lög og reglur eru þynntar út og gleymast og mannskepnan færist fjær Guði, eins er um hvíldardaginn, hann er eins og kristin trú, ekki vinsæll meðal þeirra sem ekki vilja vita eða trúa. Jesús sjálfur talaði um hvíldardaginn og var þá að tala um þennan sjöunda, enda sagði hann að þegar menn hefðu séð sig hefðu þeir séð Föðurinn. Hann sagði líka að mannssonurinn væri Herra eða Drottinn Hvíldardagsins, sjá Matteus og Markús og Lúkas. Og í Jóhannes 8.58 segir: Jesús svaraði: Sannlega, sannlega segi ég yður: Áður en Abraham fæddist er ég. Sem sýnir að Jesús var ekki bara að verða til við fæðingu sína í Betlehem, hann er Guð ekki síður en Faðirinn Guð. Í Jóhannes 1.18 segir : Enginn hefur nokkurn tíma séð Guð. Sonurinn eini, Guð, sem er í faðmi föðurins, hann hefur birt hann. Ég spyr hvenær ætlar hinn svokallaði kristni einstaklingur að vakna og fara að fræðast um það sem segir í Orði Guðs í stað þess að fella sleggjudóma um hitt og þetta og fara rangt með? Ég segi svokallaði kristni vegna þess að fæstir hirða um það sem stendur í Biblíunni en vilja svo að Guð grípi inní ef eitthvað bjátar á eða ásaka hann ef mikil áföll og veikindi eða slys ber að höndum. Þá er rekið upp kvein og Guð ásakaður um grimmd eða afskiptaleysi. Menn eru ekkert betri en ofdekraðir unglingar sem hugsa ekki út fyrir Ipodinn sinn eða næsta djamm. Að vísu á þetta ekki við um alla sem betur fer en sorglega marga. Að lokum vil ég segja þetta: megi Guð gefa Anda sinn inn í hug og hjörtu og upplýsa ykkur um sannleikann sem Kristur prédikaði.
Trúmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.9.2010 | 20:21
Vinkona mín er sofnuð.
Ég skrifaði enga minningargrein um hana Unni Ingunni Steinþórsdóttur, ég fylgdi henni til grafar í dag. Það skrifuðu margir fallega um hana og ég tek undir það allt. Unnur var ein af því fólki sem varð til þess að ég kaus að ganga með Guði fyrir 23 árum. Ég hitti hana þá og kynntist henni. Hún sýndi mér einstakan kærleik og vinarþel. Hún birti sanna kristilega framkomu og verk fylgdu orðum. Meðan ég talaði við unga prestinn sem hélt námskeið, sem ég sótti, kvaddi Unnur og hélt út í vetrarmyrkrið og skóf héluna af bílrúðunum á bílnum mínum. Hún var að sýna mér sérstaka athygli og kærleik á sinn sérstaka persónulega hátt. Ég gleymi þessu aldrei. Mér leið illa þetta kvöld og var að rifja upp sárar minningar, Unnur sýndi mér að til er fólk sem telur ekki eftir sér að sýna stuðning og elsku. Siðar fékk ég tækifæri til að kynnst henni þegar ég var ráðin til heimilisaðstoðar á heimili þeirra hjóna, Jóns og hennar. Þá fékk ég að kynnast konu sem lét alvarleg veikindi ekki buga sig og var alltaf að gera eitthvað fyrir aðra. Sauma sængurföt eða nýja flík fyrir börnin sem komu eða einhverja sem hún vissi að þurftu á því að halda. Mér blöskraði stundum allt ljósmyndastússið hjá henni. Hún átti svo fína myndavél og tók myndir við flest tækifæri, en svo lét hún framkalla þær og það vel, ef eitthvað var að var farið aftur til að láta laga lýsingu eða lit. Svo var mynd eða myndir sett í plast og síðan var skrifað heimatilbúið kort með fallegri rithönd til þess sem átti að fá mynd af sjálfum sér og mögulega vinum og ættingjum. Á kortið var skrifað vers og blessanir með óskum um allt það besta til handa móttakanda. Hvernig hún fann tíma til að gera allt þetta skil ég ekki enn þann dag í dag. En ég veit að þessi kort eru svo dýrmæt sem og allar kveðjurnar og gjafirnar. Það dygði í heila bók. Hversvegna er ég að segja frá þessari látnu konu?. jú vegna þess að hún endurspeglaði sanna trú á Jesú Krist. Ég man enn stundirnar okkar við eldhúsborðið hennar. Við borðuðum saman og hún bað alltaf þakkarbæn fyrir matinn. Hún bað líka sérstaklega fyrir þeim málum sem ég trúði henni fyrir, hún trúði á Guð af öllu hjarta og tók alvarlega allt sem hin helga bók segir. Unnur trúði því líka sem Biblían segir að dauðinn sé svefn og að við vitum ekki af okkur fyrr en við endurkomu Jesú til jarðar. Þetta vita allir sem hana þekktu. Samt virðast svo margir ekki vilja samþykkja einmitt þetta atriði. Ég skil það að sumu leyti. Ég var sjálf svoleiðis þenkjandi þegar ég hitti Unni fyrst. Ég trúði meira að segja á að maður gæti talað við látna gegnum miðla og að þeir sem dæju færu bara á annan stað. Aðrir trúa því að farnir ástvinir séu tilbúnir og taki á móti þeim sem deyr strax við dauðastund eða fljótlega eftir hana. Samt segir Biblían ljóslega að þeir sem deyi viti ekkert. Í Prédikaranum 9. kafla segir: 5Þeir sem lifa vita að þeir eiga að deyja en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar og minning þeirra gleymist. 6Bæði ást þeirra, hatur og öfund, það er fyrir löngu farið og þeir eiga ekki framar hlutdeild í neinu sem við ber undir sólinni. Er Guðs orð ekki sannleikur?
Í Jóhannesarguðspjalli er margt talað um dauðann. 9. kaflinn er þörf lesning. 24Þess vegna sagði ég yður að þér munduð deyja í syndum yðar. Því ef þér trúið ekki að ég sé sá sem ég er munuð þér deyja í syndum yðar. Þetta segir Jesús við lærisveina sína og fólkið.
25Fólkið spurði hann þá: Hver ert þú? Jesús svaraði því: Sá sem ég hef sagt yður frá upphafi 26Margt hef ég um yður að tala og fyrir margt að dæma. En sá sem sendi mig er sannorður og það sem ég heyrði hjá honum, það tala ég til heimsins.
27Fólkið skildi ekki að hann var að tala við þá um föðurinn. 28Því sagði Jesús: Þegar þér hefjið upp Mannssoninn munuð þér skilja að ég er sá sem ég er og að ég geri ekkert einn og sér heldur tala ég það eitt sem faðirinn hefur kennt mér. 29Og sá sem sendi mig er með mér. Hann hefur ekki látið mig einan því ég geri ætíð það sem honum þóknast. 30Þegar hann mælti þetta fóru margir að trúa á hann. Já það fóru margir að trúa á hann þá. En síðan eru liðin mörg ár og í dag virðist trúin vera eins og hlaðborð sem fólk velur sér sína uppáhaldsrétti frá. Margir segja enn að þegar einhver deyr sé tekið vel á móti þeim látna hinu megin. Og prestarnir taka undir þetta til að hafa fólkið með sér? eða tala svo flestum líki, eða eru þeir ósammála þeim versum sem ég vitnaði í? Þetta er svosem falleg hugsun en sýnir meir mannlega skammsýni fremur en trú. Ef þeir látnu gætu fylgst með okkur sem eftir lifum í allskonar ástandi, hvílík sorg yrði ekki hjá þeim og eftirsjá á stundum. Hvernig gæti ung móðir sem deyr frá börnum sínum glaðst yfir örlögum sínum, eða fagnað með þeim sem ættu að vera að taka á móti henni. Gleðifundir segja margir í einlægum minningargreinum. Ég þykist vita að margir verði ósáttir við þessi orð mín. Ég vil samt minna á að vinkona mín sem kvödd var í fögru veðri í dag, trúði því sem Ritningin segir, að Frelsarinn komi á sínum tíma og með mætti skaparans sem allt skapaði, kalli fram þá sem sofa í gröfum, jafnvel þó liðin séu þúsundir ára og þeir séu löngu orðnir að dufti, að jörðu skaltu aftur verða. Guð hefur óbrigðult minni. Ekkert gleymist. Ef sumir geta trúað að jörðin og lífið hafi byrjað með stórum hvelli afhverju ætti þá að vera erfiðara að trúa að Guð hafi kallað það allt fram með orði munns síns og muni gera það aftur á efsta degi. Ef hann sagði það, hví þá að efast um það. Ég kaus að sleppa hjátrúnni og dulrænu áhugamálunum á sínum tíma. Ég kynntist m.a. Unni sem sýndi mér sanna ávexti hreinnar trúar á Guð. Ég hef séð ýmsa ávexti hjá ýmsu fólki, en enga betri en þessa. Ég ætla að trúa eins og elskuleg trúsystir mín gerði og hlakka til að sjá hana á ný, heilbrigða, unga og fallega með hreint og falslaust bros sem öllum vildi vel. Já mættu allir sem hana þekktu endurskoða líf sitt og trú og kjósa orð Guðs eins og það er en ekki samsafn eigin hugmynda og mannasetninga eins og svo vinsælt er nú á dögum. Ég bið þess að fólk eins og hún megi verða fleirum leiðarljós. Guð blessi minningu sanntrúaðrar konu.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
20.8.2010 | 20:02
Fyrirgefningin og krossinn
Eitt það erfiðasta sem mannskepnan glímir við er að kunna að fyrirgefa. Eða hvað haldið þið. Finnst þér auðvelt að fyrirgefa allt mögulegt sem þér er gert á móti skapi, eða ef þú ert særð eða særður.
Vissulega er auðveldara fyrir þá sem sjá sig sem kristna einstaklinga og trúa einlæglega á Guð, vissulega er auðveldara fyrir slíka að skilja hvað fyrirgefning snýst um og um leið að fyrirgefa öðrum rangsleitni þeirra, eða hvað???? Hvað þýðir krossinn fyrir okkur ? Hve sterk er sú fyrirmynd að fyrirgefningu sem við sjáum þar?Ungur hermaður var í seinni heimsstyrjöldinni á vígaslóðum í Ítalíu og stökk ofaní skotgröf rétt á undan banvænu kúlnaregni. Þarna sem hann var, reyndi hann af öllum mætti að grafa sig dýpra niður í holuna til að fá meira skjól. Í örvæntingarfullum hamagangi við að grafa og róta burt moldinni með berum höndunum, fann hann allt í einu silfurkross í hendi sér, sem einhver annar hermaður hafði týnt í sömu skotgröf. Augnabliki síðar stökk annar maður niður í holuna hjá honum. Hermaðurinn með silfurkrossinn sá að þetta var herprestur og sagði með feginsrómi, mikið er ég feginn að sjá þig, hvernig færðu þennan til að virka?? Já margir hafa gert þau mistök að halda að samkvæmt gamla testamentinu hafi fólk frelsast fyrir verk sín en svo að samkvæmt nýja testamentinu frelsist maðurinn fyrir trú. Ekki alveg rétt. Allir sem eru frelsaðir eru það vegna trúar á fórnarverk Jesú. Allir frá Adam til Jóhannesar skírara voru frelsaðir með því að horfa í trú til krossins. Allir sem frelsast í dag , gera það vegna þess að þeir horfa til baka í trú til krossins. Allir frelsast fyrir trú með því að halda fast í þetta: Jóhannes 1. 29 Sjá, Guðs lamb sem ber synd heimsins.Þetta er svo einfalt. Við getum ekki frelsast án elskandi Föður. En hvernig förum við að því að elska hann.? 1. Jóhannesarbréf 4.19 Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði.Krossinn er sterkasta tákn um elsku Guðs til okkar, þar sem hann bað um fyrirgefningu til handa öllum mönnum, einnig þeim sem í taumlausri grimmd tóku líf hans.Pétur segir okkur að ef við viljum frelsast verðum við fyrst að iðrast.Ekki lagast það, er þetta ekki einmitt en eitt atriði sem manninum er svo erfitt?Hvers vegna þarf Guð að gera þetta svona erfitt ? Eða er það svona erfitt? Og hvernig iðrumst við? Guði sé lof þá fáum við líka svar við því í Rómverjabréfinu 2.1-41Því hefur þú, maður, sem dæmir, enga afsökun hver sem þú ert. Um leið og þú dæmir annan dæmir þú sjálfan þig því að þú, sem dæmir, fremur hið sama. 2Við vitum að Guð dæmir þá með réttu sem slíkt fremja. 3Hyggur þú, maður, sem dæmir þá er þvílíkt fremja og gerir sjálfur hið sama, að þú munir umflýja dóm Guðs? 4Eða forsmáir þú hans miklu gæsku, þolinmæði hans og biðlund og lætur þér ekki skiljast að gæska Guðs vill leiða þig til afturhvarfs?Þá vitum við það, gæska Guðs leiðir okkur til afturhvarfs. Það er á krossinum sem við sjáum gæsku Guðs birta. Þar sjáum við ást Satans á valdi og um leið VALD ástar Guðs. Krossinn er aðalhvatinn að sannri umbreytingu og sinnaskiptum. Steve Brown sagði sögu af öðrum breskum hermanni í seinni heimsstyrjöldinni. Sá hafði misst kjarkinn og hugðist hlaupast á brott frá öllu saman. Í tilraun til að komast til strandar til að freista þess að ná í bát og komast yfir sundið til Englands, endaði hann með að reika um í næturmyrkrinu, algerlega villtur. Þá kom hann að einhverju sem honum sýndist vera skilti eða vegvísir. Þar sem myrkrið var svo svart, klifraði hann upp staurinn til að lesa hvað þar stæði.Er hann kom upp kveikti hann á eldspítu og fann sjálfan sig horfa beint á andlit Jesú. Hann gerði sér grein fyrir að þetta var enginn venjulegur vegvísir heldur eitt af þessum trúarlegu skiltum við þjóðveginn. En það var þá sem hann mundi hver hafði dáið fyrir hann. Hver hafði haldið út, og aldrei snúið við. Næsta dag var þessi hermaður aftur komin til sinna stöðva. Við ættum að minnast þess sem lesa má í Hebreabréfinu. 12: 2-3. Beinum sjónum okkar til Jesú, höfundar og fullkomnara trúarinnar. Hann leið með þolinmæði á krossi og mat smán einskis af því að hann vissi hvaða gleði beið hans og hefur nú sest til hægri handar hástóli Guðs. 3Virðið hann fyrir ykkur sem þolað hefur slíkan fjandskap gegn sér af syndurum, til þess að þið þreytist ekki og látið hugfallast.Það er krossinn sem gefur kraftinn til að fyrirgefa. Velska skáldið og lærifaðirinn Georg Herbert sagði: Sá sem getur ekki fyrirgefið öðrum, brýtur niður brúnna sem hann verður sjálfur að fara yfir.Hvernig er þá hægt að fyrirgefa öðrum sem hafa hugsanlega sært okkur djúpu sári? Ef við stöndum í skæru ljósi atburðanna á Golgata, verður óhreinleiki okkar eigin persónuleika óþægilega skýr og augljós. Það gefur okkur betri yfirsýn yfir þá staðreynd að Jesús hefur fyrirgefið okkur svo óendanlega mikið. Þegar við í sannleika áttum okkur á hve fullkomlega Guð hefur leyst okkur endurgjaldslaust undan fjallháum syndahaug, þá verða syndir annarra gagnvart okkur óttalegar þúfur.
Í Matteus 18. kafla segir Jesú dæmisögu, sem margir þekkja vel, um þjón sem konungur nokkur sýndi miskunn og gaf upp skuld, sem var þó býsna stór. En þjónninn aftur á móti sýndi samþjóni sínum enga miskunn vegna smáskuldar og lét varpa honum í skuldafangelsi. Í þessum sama kafla segir frá því er Pétur spyr sérstakrar spurningar. 21Þá gekk Pétur til hans og spurði: Drottinn, hve oft á ég að fyrirgefa bróður mínum ef hann misgerir við mig? Svo sem sjö sinnum?22Jesús svaraði: Ekki segi ég þér sjö sinnum heldur sjötíu sinnum sjö . Dr. Alexander Dejong sagði: Að fyrirgefa einhverjum felur í sér 3 þætti.1. Það þýðir að þú sleppir réttinum til að slá til baka. Maður hafnar lönguninni til að gjalda illt umtal með illu umtali, og slæmri framkomu með verri framkomu. 2. Það þýðir að maður setur í stað biturleika og reiði, góðvilja og kærleika sem velur að stuðla að velferð fremur en skaða mótaðilans. 3. Það þýðir að sá sem fyrirgefur tekur ákveðin skref í átt til þess að byggja upp heilbrigð og vinsamleg.samskipti Eftir Borgarastríðið í Ameríku forðum heimsótti Robert Lee konu sem bjó Kentucky. Hún sýndi honum leifar af gömlu merkilegu tré sem staðið hafði í ótal mörg ár framan við húsið hennar. Hún gréti beiskum tárum vegna þess mikla skaða sem gamla tréð hafði orðið fyrir vegna skothríðar stríðandi fylkinga. Hún bjóst við að herforinginn mundi bölva norðanmönnum eða fordæma þá harðlega fyrir skemmdirnar, eða allavega láta í ljós samúð gagnvart henni vegna missis hennar.. Lee þagði smástund en mælti síðan hlýlega: Höggðu það niður, mín kæra frú, og gleymdu þvíAð fyrirgefa í sannleika, þýðir að kjósa að gleyma. Clara Barton, stofnandi ameríska Rauða krossins, var minnt á það eitt sinn að einhver hafði gert henni mikinn og illan óleik nokkrum árum áður. En hún lét eins og hún hefði aldrei heyrt um þennan atburð. Manstu þetta ekki? spurði vinur hennar.Nei, svaraði hún, ég man greinilega eftir að hafa gleymt því.
Vissulega er krossinn ekki falleg mynd, en það er syndin ekki heldur. Þegar við veltum fyrir okkur harmleik krossins þá skulum við minnst þess að það eru okkar hræðilegu syndir sem ollu því öllu.
Ekki einasta kennir krossinn okkur um óendanlega stórkostlegan kærleika Guðs, en minnir okkur jafnframt á hve syndin er andstyggileg í augum Guðs. Saga er til um lögregluþjón í Englandi sem kvöld eitt heyrði í barni sem hágrét. Hann gáði og fann lítinn dreng sem sat á dyraþrepi. Með tárin streymandi niður kinnarnar kjökraði drengurinn að hann væri týndur og bað lögreglumanninn að hjálpa sér að komast heim. Lögreglumaðurinn settist hjá drengnum og spurði hvort hann vissi heimilisfangið.. Sá litli hristi höfuðið. Lögreglumaðurinn hóf að telja upp ýmis götunöfn, verslanir og hótel í hverfinu, en án árangurs. En svo mundi hann eftir þekktri kirkju með stóran hvítan kross sem gnæfði yfir nágrennið á hæð skammt frá. Krossinn sást þaðan sem þeir sátu. Lögreglumaðurinn benti barninu á krossinn og spurði: Býrðu einhverstaðar nálægt þessum stað? Drengurinn leit upp eitt augnablik og það birti yfir litla andlitinu. já, þarna er það, farðu með mig að krossinum. Þá rata ég heim . Krossinn er ennþá upphafspunkturinn á leið heim fyrir týnd börn Guðs. Jóhannesarbréf 3.23.Og þetta er hans boðorð að við skulum trúa á nafn sonar hans Jesú Krists og elska hvert annað, samkvæmt því sem hann hefur gefið okkur boðorð um.Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.8.2010 | 21:11
Hættan við að útþynna sannleikann.
Árið 2002 vann krabbameinssjúklingur að nafni Georgia Hayes mál fyrir bandarískum dómstóli og fékk 2,2 milljarða dala. Málinu var stefnt gegn fyrrum lyfsala hennar, Robert R. Courtney. Glæpurinn? jú hann hafði þynnt út krabbameinslyfið hennar með vatni. Þetta gerði hann í þeim tilgangi að græða eins og allir geta ímyndað sér. Afleiðingin fyrir sjúklinginn varð sú að hún missti af tækifæri til að fá sem bestan bata vegna lélegra verkana lyfja sem lyfjafræðingurinn gráðugi hafði þynnt út. Þessa iðju hafði hann stundað í meira en áratug og þar með haft óbætanleg áhrif á líðan og líf um 4200 sjúklinga. Þessi 48 ára gamli, 5 barna faðir situr nú inni næstu 30 árin. Hvílík sóun á hlutverki og lífi eins manns sem notaði kunnáttu sína til að vinna ill verk, allt til að græða.
En þetta blogg á ekki að fjalla um lyfjanotkun eða lyfjasölu, þó margt megi skrifa um það. Nei mig langar til að beina sjónum okkar að Ritningunni. Hafið þið tekið eftir hve tilhneigingin til að þynna hana út er orðin rík meðal allra sem einhvers mega sín og hafa áhrif? Hafið þið tekið eftir hvað Satan , með sinni lymskusnilli, er búin að fá í gegn undanfarna áratugi?
Í dag getur að líta marga kristna, eða sem vilja kalla sig svo, sem eru orðnir illa siðferðislega veiklaðir vegna útþynningar kristinnar trúar. Þau fá rétt svo nægan skammt af fræðslu og ýmiskonar föstum siðareglum og athöfnum á kirkjunnar vegum, til að halda sig hólpin og í góðum málum. Þekkingin á Guðs orði er ekki í tísku og því lítil sem engin, og skilningur því enn minni.
Ég vinn með fólki og þar af leiðandi hef ég í gegn um árin séð og fundið þann mikla mun á fólki sem á lifandi trú og því sem telur sig í góðum málum með sína "barnatrú". Hvernig var það annars, talaði Páll postuli ekki um að leggja niður barnaskapinn þegar aldur segði til um það? Við höfum séð tilburði kirkjunnar til að gera lítið úr alvarlegum áburði á menn sem eiga að gæta "sauðanna". En er það nokkuð undarlegt? Ef Háskólinn er leiðandi í að vera "nútímalegur" og "vísindalegur" og guðfræðideildin ber keim af því er þá von til að frá henni komi kennimenn sem bera í hjarta sanna auðmýkt og trú á skapara sem ekkert er hulið? Ef í kirkjunni eru sjúkir einstaklingar sem eru ekki færir um að rísa undir trausti, þá verður kirkjan sjálf sjúk að innan og spillt. Hvar er sönn syndajátning og iðrun? Er það eitthvað sem á ekki við í dag? Ég hef ekki séð í allri Biblíunni að það færi einhvertíma úr tísku að játa misgjörðir og leita til Guðs um hreinsun og fyrirgefningu. Á það virkilega helst við um þá sem hafa ratað inn á ógæfubrautir fíkinnar að finna lifandi trú og gefa Guði hjarta sitt og kannast við Jesú Krist? Eru þeir sem hlotið hafa akdemiska menntun svo hrokafullir að þeim sé varla við bjargandi? Satan byrjaði á að rugla fyrstu mannverurnar með því að útþynna sannleika Guðs og snúa útúr honum, þegar hann sagði " vissulega munuð þið ekki deyja". Við eigum öll að deyja og við fyllingu tímans mæta gjörðum okkar og þeirri uppskeru sem við sáðum til. En okkur bauðst milligöngumaður, Jesú, sem dó til að við þyrftum ekki að mæta ein afleiðingum gjörða okkar, því þá værum við glötuð að eilífu. Hann er einn fær um að gera okkur hrein og fjarlægja óhreinindi synda okkar. Hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Já hvar er trú kirkjunnar manna, er hún orðin svo þunn hjá mörgum að það hreifir ekki við fólki nema til að fá það til að fljóta rólega og ómeðvitað að feigðar ósi? Hversu margir trúa að Kristur hafi sagt satt þegar hann sagðist koma aftur? Hvernig hafa prestar margir kosið að túlka það? Þynnt það út sem ævintýri eða líkingu? Hverju á þá að trúa? Jarðskjálftinn á Haíti telst hafa drepið um 230.000 manns. Líklega verða það miklu fleiri því líf margra eru rústir einar og glæpir og illmennska bæta við tjónið og notfæra sér neyðina. Mesti skaðinn var vegna hruninna bygginga. Hversvegna?. Vegna þess að svo margir byggingaverktakar þynntu út steypuna með sandi og hirtu ekki um að setja löglega styrkingu í uppistöðuveggi. Spámenn gömlu tímanna spöruðu ekki stóru orðin þegar kom að því að tyfta hrokafullan lýðinn eins og lesa má í 13.kafla Esekíels. 10Þeir hafa blekkt þjóð mína með því að boða heill þar sem engin heill var. Væri veggur reistur kölkuðu þeir hann. 11Segðu við þá sem kalka: Þegar steypiregn kemur, haglél dynur og stormur skellur á honum 12og veggurinn er hruninn, munu menn þá ekki spyrja ykkur: Hvar er nú kalkið sem þið kölkuðuð með?
Þó hér sé ekki verið að tala um byggingarverktaka á Haíti eða annars staðar þá er verið að tala um vandamál sem enn hrjáir fólk. Vandamál þar sem óheiðarleiki og útúrsnúningar, hroki og sjálfumgleði eru orðin sjálfsögð og viðurkennd persónueinkenni. Heimurinn er að breytast ört og við eigum eftir að undrast yfir mörgu. En því miður eins og við höfum séð, þá hlustar maðurinn ekki á aðvaranir nú fremur en á dögum Nóa. Maðurinn er ekki fremur fyrir það gefin að iðrast í dag, heldur en þegar Kain framdi ódæðisverkið á bróður sínum forðum. Hver þekkir þá sögu í dag nema sem óljósa og kannski ruglingslega frásögn um mismunandi fórnir.
Kain "þynnti" út sína fórn og taldi hana "fullgóða" rétt eins og byggingarverktakarnir steypuna og lyfjafræðingurinn krabbameinslyfið. Þegar maðurinn treystir á eigið ágæti og þakkar sjálfum sér allt. Telur menntun sína og ágæti hafið yfir allt sem kallast gæti andlegur þroski og trú. Við hverju er þá að búast? Vona að þið sem lesið Guðs orð tjáið ykkur. Þið hin sem viljið ekki neitt með Guð hafa. Þið hafið þetta frjáls val og megið eiga það í friði. Hann neyðir engan til að trúa, svo einfalt er það.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.4.2010 | 13:05
Voru lög brotin?
Umræða undanfarinna daga getur auðveldlega ært óstöðugan, já í raun hvern sem týnir sér í henni. Hver eftir annan stígur fram og lýsir yfir "lítilli" ábyrgð eða bendir á aðra, menn eða flokka, ráðherra og valdahópa. Þetta er allt saman mjög mannlegt. Frá upphafi hefur maðurinn haft þessa tilhneigingu að kenna helst öðrum um. Adam reyndi að kenna Guði um þegar þau hjón völdu að óhlýðnast skapara sínum. En það vekur athygli mína hve margir sega sem svo ,"ég hef ekki brotið nein lög" eða ekki voru nein lög brotin svo við vitum. Skelfilegt að heyra svona en undirstrikar hve langt við erum komin frá siðferðagildum kristinnar trúar. Eitt af því sem Jesús sagði var þetta: Jóhannesarguðspjall 14: 15 "Ef þér elskið mig munuð þér halda boðorð mín".Takið eftir að Jesús talar hér eins og sá sem valdið hefur, hann er Guð, hann sagði það skýrt í Mattheusi 28. 18 "allt vald er mér gefið á himni og jörðu" og hann sýndi einnig að hann hafði vald til að fyrirgefa syndir sem er jú í Guðs hendi , sjá Markús 2:10 "En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald til að fyrirgefa syndir á jörðu," og svo sagði hann lama manninum að taka rekkju sína og ganga á brott. Við sem höfum unnið við fatlaða, vitum vel að svona gerist ekki bara rétt sí svona. Jesús hafði þetta vald, hann var Guð meðal manna til að leysa þá frá launum syndarinnar, sem er eilífur dauði. Án hans höfum við enga von um eilíft líf. Við sjáum svo margt í dag sem skapraunar okkur og vekur reiði. Það er vatn á millu óvinar Guðs og manna. Hann vill að við séum upptekin við að ergja okkur út í óréttlæti og græðgi annarra. Sá óvinur vill að við segjum þeim stríð á hendur og leitum hefnda og refsinga. En hvað sagði Kristur í Lúkasi 6. kafla frá 24. versi? "24En vei yður, þér auðmenn,
því að þér hafið fengið yðar skerf. 25Vei yður, sem nú eruð saddir, því að yður mun hungra.
Vei yður, sem nú hlæið, því að þér munuð sýta og gráta. 26Vei yður, þegar allir menn hæla yður því að eins fórst forfeðrum þeirra við falsspámennina. 27En ég segi yður er á mig hlýðið: Elskið óvini yðar, gerið þeim gott sem hata yður, " Þetta er það erfiðasta sem við gerum og við viljum helst ekki hlusta á þessi orð Krists, svo skýr sem þau eru. Mörg vitur orð og ráð má finna í Orðskviðunum og þessi eru góð til íhugunar."Orðskviðirnir 16:1 Fyrirætlanir hjartans eru á mannsins valdi en svar tungunnar kemur frá Drottni". Og 18: 6 Orð heimskingjans valda deilum, munnur hans býður höggunum heim. einnig er athygli vert að lesa 23:1 2 Þegar þú situr til borðs með valdhafa gættu þess þá vel hvern þú hefur fyrir framan þig." Það er ekki alltaf allt sem sýnist og mörgum er ekkert heilagt í dag, að mæla lygi þykir bara sjálfsagt, stundum sagt að verið sé að hagræða sannleikanum. En ég hef ekki séð neins staðar í Guðs orði að hægt sé að "hagræða" sannleika. hann er annaðhvort sannleikur eða lygi. Í Orðskviðunum 29.12 segir; "þegar valdhafinn hlýðir á lygaorð verða allir þjónar hans sekir." Orð sem vert er að athuga vel. Ég tel að þeir sem eingöngu horfa á sjálfa sig sem afkomendur apa og sjá Guðs orð sem svona merkilegt rit en ekki sannleika og tilvísun í Guðs lög, þeir týnast í blekkingum heimshyggjunnar. Þeir hrokast upp og glata sýninni á réttlæti og heiðarleika. Við erum öll sek um brot á boðorðum Guðs, dag hvern ef eitthvað er, ef við ættum ekki Jesús að sem milligöngumann og réttlæti í stað synda okkar, værum við að eilífu glötuð. En þá verðum við að muna eitt. Hans er að dæma, ekki okkar. Hann mun sjá til þess að réttlætið nái fram að ganga. Ég er ekki að segja að við eigum ekki að reyna að ná til þeirra sem órétt frömdu og töpuðu sér í græðgi og ásókn eftir "vindi og hégóma", en ef við töpum okkur í reiði og gleymum kristnum gildum þá erum við ekkert betri en þeir sem tóku mestan þátt í hrunadansinum. Sumir kunna að sýna andlit sem viðrist iðrast og við sáum frægan golfara sýna mikla iðrun í beinni útsendingu. Nú er sagt að frægt íþróttafyrirtæki sem hefur styrkt hann hafi haft hönd í bagga með að reisa ímynd hans við og það síðasta er víst myndband sem sýnir Tiger stara í myndavélarnar og hlusta á rödd að "ofan" þar sem faðir hans, sem er löngu dáinn, er að lesa honum pistilinn. Smekklaust ef ekki glæpsamlegt ef satt er. En fjölmiðlarnir eru duglegir við að ýta undir andatrú, sem er í algjörri andstöðu við Guðs orð. Sagt er að eiginkona þessa fræga manns sé við það að gefast upp á að vinna í endurreisn hjónabandsins og hafi reiðst mjög við þetta útspil styrktaraðilans. En svona er heimurinn í dag. Ef þeir vilja halda áfram að græða og halda úti ímynd, þá er ekkert heilagt fyrir þeim, ekkert. Allt sem kitlar eyrun og blekkir fólk enn meira er ausið yfir mannkynið í gegn um skjáinn. Í síðara Tímóteusarbréfi talar postulinn Páll um komandi tíma og ættu allir að lesa 3 kaflann en í 4. kaflanum stendur þetta m.a."3Því að þann tíma mun að bera er menn þola ekki hina heilnæmu kenningu heldur hópa að sér kennurum eftir eigin fýsnum sínum til þess að heyra það sem kitlar eyrun. 4Þeir munu snúa eyrum sínum burt frá sannleikanum og hverfa að kynjasögum. Er þetta ekki eitt aðalmeinið í okkar heimi núna? Menn hafa horfið frá sannleika og heiðarleika og telja jafnvel barnaskap og einfeldni að skoða sjálfa sig í spegli Guðs orðs. Munið þið eftir þessum manni í Mattheusi 19. kafla.?
17Þegar Jesús var að leggja af stað kom maður hlaupandi, féll á kné fyrir honum og spurði hann: Góði meistari, hvað á ég að gera til þess að öðlast eilíft líf? Mér dettur ekki í hug að halda því fram að þeir sem eru ríkir og valdamiklir eigi ekki aðgang að Guðsríki í fyllingu tímans. En það er ekki okkar að dæma, okkar er að fara eftir því sem Jesú kenndi okkur, að biðja fyrir þeim og já elska óvini okkar. Jesú er eina örugga fyrirmyndin til að byggja á. Hann elskar án þess að dæma, hann læknar án þess að fara í manngreinarálit. Þeir sem eru og hafa verið að týna sér í þessu lífsgæða kapphlaupi eru ekki öfundsverðir, því þeir eru týndir í þessum heimi. þeir þarfnast bæna okkar ekki síður en þeir sem þola hungur og skort. Hættum að skemmta óvininum og eyða löngum tíma í að býsnast. Skoðum okkur sjálf og hjálpum þeim sem verst hafa orðið úti með öllum hætti. Sýnum stillingu og verum varkár í orðum. Ég sjálf þarf að taka mig í gegn og hætta að ergja mig, ég ákveð hér og nú að gefa þetta mál sem ég hef enga stjórn á, í hendur Guðs og fel honum lausnina. Það eru að koma breyttir tímar og hlutir sem marga órar ekkert fyrir. Meyjarnar fimm sem höfðu ekki olíu á lömpum sínum, sinntu ekki því sem sinna þurfti og urðu of seinar að átta sig. Þær misstu af brúðkaupi lambsins. Hvað þýðir það fyrir okkur? Skoðum það nánar leitum svara hjá Guði sjálfum og í Orði hans. Guð blessi okkur öll.
|
|
Rómverjabréfið 5. kafli |
17Ef misgjörð hins eina manns leiddi til þess að dauðinn tók völd með þeim eina manni, hve miklu fremur munu nú þeir sem þiggja hina ómælanlegu gjöf náðar og sýknunar fá líf og ríki vegna hins eina, Jesú Krists. 18Allir urðu sekir vegna afbrots eins. Svo verða allir sýknir og öðlast líf sakir þess fullkomna verks sem einn vann. 19Allir urðu syndarar vegna óhlýðni eins manns. Eins verða allir lýstir sýknir saka vegna hlýðni hins eina. |
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.1.2010 | 07:05
Nýtt ár 2010
Gleðilegt ár kæru landsmenn og bloggvinir. Ég sit hér á næturvakt og hlusta á hrotur elstu borgara landsins, sem sumir hafa ekki hugmynd um né kæra sig kollótt um hvaða dagur eða ár er komið. Þau hafa mörg hver stigið inn í sinn eigin heim sem hjálpar þeim sumum til að þurfa ekki að horfast í augu við miskunnarlausan veruleika, þar sem líkamlegt þrek og heilsa er tekin að bila og vitundin um það gæti orðið næst óbærileg. Ég er búin að segja öldnum bónda um það bil 6 eð 8 sinnum að hann eigi ekkert erindi á fætur, enn sé hánótt, en hann þarf að telja rollur eða eitthvað annað álíka merkilegt og trúir trauðla að það sé nýársnótt og tími til að sofa. Margir spyrja , hvernig verður þetta ár? Hvaða eldfjall mun gjósa? Hve margir verða gjaldþrota? Sumum finnst að þeir sem komu okkur, venjulega daglaunafólkinu og öryrkjum, í þessar erfiðu aðstæður, eigi skilið að verða gjaldþrota. Það örlar á dálítilli hefndargirni, smáreiði og sárindum. En málið er bara það að ekkert okkar græðir neitt á því að þeir sem voru "ríkir" verði gjaldþrota. Meira að segja er það mjög bagalegt í sumum tilvikum því þá hverfa um leið fyrirtæki sem skapa dýrmæta atvinnu. Það er bara svoleiðis. Auðvitað eiga þeir sem höguðu sér af algerri græðgi og ábyrgðarleysi að standa eða falla með gerðum sínum og svara til saka. En það hjálpar okkur hinum lítið að illa fari fyrir þeim að því marki að þeir sitji slippir og snauðir eftir. Þeir eiga líka börn og fjölskyldur og hvað gagnast það okkur þegar slíkt fólk þjáist vegna alls sem á undan hefur gengið. Vissulega má fólk fara að slá af og hætta sukki í ofurlífsgæðum og lúxusferðum til fjarlægra landa, til að þamba kampavín og skoða fræga liðið. En við erum ekkert bættari með að ergja okkur á því hvort þetta fólk fær makleg málagjöld. Vonandi verður hægt að fá eitthvað til baka í verðmætum og vissulega þarf að fella dóma. Við sem höfum hert sultarólina og verðum að herða enn meir á þessu ári, við þurfum að horfa upp og fram, treysta á Guð og muna að hann varaði við þessum örðugu tíðum í sinni helgu bók. Það hlýst alltaf ógæfa af því að gína yfir og sópa að sér meiru en maður þarf. Græðgin er afkvæmi Satans og fallina engla hans. Hann vildi komast jafnfætis sjálfum skapara heimsins, sóttist eftir að ná völdum yfir æðsta sköpunarverki hans hér, manninum, og tókst það allavega, en aðeins skamma stund. Því hjá Guði eru þúsund ár sem einn dagur og hann er þolinmóður og gæskuríkur. Hann leyfir manninum að rasa út í þessu ferðalagi og reka sig á. Við höfum frjálst val um hvaða húsbónda við hlýðum. Vissulega er óhugnanlegt að sjá hve sterkt húsbóndavald hins illa er. Já það dregur nær uppgjöri á milli góðs og ills. Það verður ekki endilega 2012, en mikið hefur sá illi valdhafi á jörðu, Satan, gaman af því að leiða fólk á asnaeyrunum eftir allskonar slíkum kenningum til að leiða athygli þess frá orði Guðs og því sem það hefur að segja um endalok tímana. Höfðingi þessa heims, eins og Kristur kallaði hann, veit að hann hefur nauman tíma og hann gengur eins og öskrandi hungrað ljón um þennan heim til að afvegaleiða eins marga og hann getur áður en Guð stöðvar hann að lokum. Meðulin sem sá örvæntingarfulli "útrásarvíkingur" og fallni engill notar eru margvísleg. Eiturlyf og áfengi eru meðal þeirra áhrifaríkustu til að brjóta niður sköpunarverk Guðs. Græðgin spilar sterkt inn í þessa hernaðaraðferð, auðvelt að ánetjast henni hvenær sem er. Hvar verðum við í lok þessa árs? Verðum við búin að temja okkur að vera hamingjusöm þrátt fyrir skort? Lærum við að þakka fyrir hvern dag sem okkur gefst án heilsubrests eða áfalla? Munum við læra að sjá upp fyrir erfiðleikana og upp í ljósið? Ég vona það fyrir okkur öll. Síðustu fréttir sem ég fékk við lok ársins voru þær að kona á besta aldri, og sem tengdist mér, væri látin. Ég varð ekki hissa. Hún var ein þeirra sem varð áfengi og lyfjum að bráð. Nú er hún öll og of seint að snúa við. Ung börn munu syrgja og spyrja, hvers vegna hún mamma, sem eitt sinn hugsaði svo vel um okkur? Munu þau varast að lenda í sömu gryfjunni. Ekki ef þau hafa ekki Guð til að treysta á. En það er bara verið að ryðja honum út úr skólakerfinu, það má ekki kenna fólki að treysta á hann. Guð er ekki í tísku. Allt þetta sá himneskur faðir okkar fyrir og Kristur sagði: "mun mannsonurinn finna trúna á jörðu,þegar hann kemur aftur"?Nei, Jesú minn, þú munt ekki finna marga á lífi sem trúa þegar þú kemur, og það veistu. Ekki fremur en að þjóðin þín sem átti spámenn sem sögðu fyrir um komu þína, tók svo ekki á móti þér, þegar þú komst nákvæmlega á þann hátt sem sagt var fyrir, löngu áður. Þú kemur ekki í einkaþotu þegar þú kemur aftur, þú munt koma í skýjum himins og það mun ekki fara fram hjá nokkrum manni. ekki heldur þeim sem voru og eru á móti þér. Ég ætla að horfa upp á þessu ári og vona á þig Kristur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 07:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.12.2009 | 15:28
Gleðilegt nýtt ár?
Verð að vígja nýja þráðlausa lyklaborðið sem maðurinn minn gaf mér í jólagjöf. Honum finnst ég eigi að skrifa miklu meira stundum og vildi gera mér það léttara með þessu fína lyklaborði sem ég get setið með og það er lagað að höndunum, betur en þau gömlu sléttu hefðbundnu. Ég verð að viðurkenna að það er ólíkt léttara að slá inn á þessu borði. Gott að eiga góðan mann;). Hvað skyldi nýja árið bera með sér? Við erum að vísu ekki að "henda" út gömlu fólki eins og norsararnir með uppsögn eldgamalla húsaleigusamninga, en erum við ekki að gera næsta ókleyft fyrir margt eldra fólk að framfleyta sér? Það var heldur ekki gleðilegt að heyra um alla þá sem leita þurftu til hjálparstofunar og slíkra fyrir jól. Fólk með krumpaða sál og dapurt geð. Einhverntíma á næsta ári munu einhverjir af þeim hætta að borga af himinháum lánum og láta börnin sín heldur hafa nóg að borða. Og einhverjir munu gefast upp. Hvað geta stjórnvöld gert þá? Hversvegna þarf að skera niður hjá þeim sem eru neðst í píramítanum og hafa rétt varla til hnífs og skeiðar, en á sama tíma er eytt stjarnfræðilegum upphæðum í allskonar óþarfa og flottræfilshátt í yfirbyggingu ríkisbáknsins? Þar sem ég vinn er okkur gert að spara allavega 10 milljónir. Sem þýðir að við verðum að fara varlega í hvað marga svampa við notum til að þrífa fólk eftir salernisferð. Við verðum að spara hanskanotkun og nota sem mest þessa þunnu sem eru eins og þeir sem fylgja með í hárlitunar-pökkum. Handþurrkurnar eru breyttar, orðnar úr stífara bréfi sem dregur miklu minni raka í sig og eru ekki góðar til að þerra með eftir þvott. Já það verður að spara víða, en ég efast um að mikill sparnaður verði þegar verri vara er notuð. Ég held að það eyðist bara meira af henni. Ég vona samt að okkur takist að fylgja þessu eftir og leggja okkar lóð á vogaskálarnar.
Nú má ég til með að leita uppi gamalt morgunblað frá 21. des og lesa greinina "Guð blessi Ísland", ég sá úrdrátt úr henni og vil endilega lesa restina. Ég er svo sammála greinarritara að við erum syndug og höfum þverbrotið lög Guðs á öllum stöðum. Ég bendi á slóðina "endtime.net" og hvet alla kristna að lesa þær greinar sem þar standa. Þar eru merkileg skrif sem vísa til spádóma Biblíunnar um breytingar á lögum hér á meðal manna sem eru upprunnar úr páfagarði. Sumstaðar í heiminum eru þessi lög þegar farin að láta finna fyrir sér og flestir fylgja bara straumnum án þess að hugsa frekar um hvað sé að gerast. Það er ekkert skrítið að Kristur sagði að endirinn kæmi yfir fólk eins og þjófur á nóttu. Enginn sem hefur orðið fyrir innbroti og ráni hefur verið viðbúin slíku. Enginn býst við að komast ekki á áfangastað, þegar hann stígur upp í leigubíl. Enda væri slæmt að lifa sífellt í ótta um líf sitt. En heldur fólk virkilega að allt það mál sem skrifað er um inngrip Guðs í málefni jarðar í helgri bók sé bara ævintýri? Heldur fólk virkilega að Jesús hafi verið að bulla eitthvað út í loftið þegar hann varaði lærisveina sína við og talaði um mjög erfiða tíma? Já heldur fólk að Jesús sé bara ævintýri sem verði meira virði á Jólunum, svona til að minna fólk á að vera nú aðeins betra hvort við annað? Jesús sagði skýrt og klárlega að hann færi burt og mundi senda hjálparann, heilagan Anda, til okkar til að fræða okkur og upplýsa. Háðfuglunum tókst að skrumskæla mynd heilags Anda svo kyrfilega að fæstir vita hvað hann er í dag, eða til hvers hann kom eða frá hverjum. Við segjum að Jesús komi aftur að dæma lifendur og dauða, en enginn veit nákvæmlega hvenær. Sjálfur sagði Kristur þó að nema mætti líkingu af ýmsu, þegar koma hans nálgaðist. Postulinn Páll talar um ástandið í mannlegu samfélagi þegar endalokin nálgast. Það má lesa í öðru bréfi Tímóteusar, 3. kafla. Sem betur fer veit enginn mannlegur nákvæmlega hvenær allt þetta mun eiga sér stað. Guð einn veit það. En jafnvel prestar kirkjunnar eru búnir að sveigja og beygja ritninguna svo að þeir láta sem ekkert sé að marka skýr skilaboð þessa texta. Þeir eru ábyrgir fyrir því að dagurinn sem talað er um í Biblíunni mun koma sem þjófur á nóttu yfir allt mannkyn. Þeir þora ekki að fræða fólk né vara það við á nokkurn hátt. Þeir kjósa að dansa eftir vilja fólksins og vera "til friðs" ekki tala um synd, né siðleysi. Nei bara vera "sætir og góðir" og segja "þetta er allt í lagi elskurnar" "Þið megið gera allt sem ykkur sýnist, meiða og særa hvert annað, þið þurfið ekkert að taka ábyrgð á gerðum ykkar, ekkert frekar en svokallaðir "útrásarvíkingar". Eða þurfa þeir kannski að taka ábyrgð? Mun veislan enda með ósköpum? Ekki getur það farið vel ef eitthvað er. Við þurfum öll að standa skil á okkar í fyllingu tímans. EF við höfum ekki tekið á móti árnaðarmanni okkar , þeim sem Páll postuli talar um, ef við teljum okkur ekki þurfa að svara fyrir orð okkar eða gjörðir, já þá erum við í vondum málum. Aðeins Jesús getur hreinsað okkur með fórn sinni. EF við höfnum því, ja þá er það á okkar eigin ábyrgð. Þá mun dagurinn sem hanns snýr aftur verða skelfingardagur í stað fagnaðarfunda. Ég kýs að treysta Jesú, sama hvað hver segir. Ég hef ekki efni á því að hafna gæsku hans og náð. Ég er glötuð án hans. Hann sem sigraði dauðann og reis upp og sagði "ég er sannleikurinn og lífið" hann er sá sem ég treysi. Ekki eitthvert jarðneskt vald sem telur sig umkomið þess að breyta helgitíðum og lögum og setja nýja hvíldardaga í samræmi við siði heiðingja sem fórnuðu sólguðinum ungabörnum til forna. Nei ég vil heiðra þann dag sem Guð setti í upphafi og helgaði og sem stendur skýrum stöfum í ritningunni í annari Mósebók 20. kafla. Dag sem aldrei hefur verið breytt frá Guðs hendi, aldrei. Guð segir fyrir munn postulans í Opinberunarbókinni, að ekki einum stafkrók megi breyta, engu og Kristur breytti engu, það voru menn sem ákvaðu að breyta helgidögum og setja sig á háan hest með því að hlýða mannasetningum framar Guðs boðorðum. Er nema vona að glundroði og örvænting ríki hjá mannanna börnum. Megi sem flestum gefast að kynnast Guði betur á nýju ári.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 15:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.12.2009 | 14:01
Dásmleg upplifun
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.12.2009 | 14:47
Fyrirgefning
Ég fékk óbeint löðrung núna rétt áðan, í gegn um símann minn. Málið átti sér forsögu eins og flest annað. Ég vinn á við að hlynna að öldruðu fólki og líkar það vel. Vinnustaðurinn er um 25 mínútna akstur frá heimili mínu, nánar tiltekið í öðru bæjarfélagi á Suðurnesjum. Þegar ég hóf störf fyrir einu og hálfu ári var eitt af plús hlutunum sá að starfsfólki úr mínu bæjarfélagi væri ekið til vinnu í leigubílum frá Hreyfli. Þetta var hið besta mál og flestir bílstjórarnir hinir almennilegustu menn. Einn er meira að segja líklega trúaður og var með biblíuvers límt á mælaborðið hjá sér. Ég var mjög sátt með það og við töluðum oft saman um daginn og veginn. Já mjög almennilegur maður í alla staði. En svo kom hrunið. Allur akstur var tekin af okkur í upphafi árs. Sjúkraliðar kærðu, þetta var inni í þeirra kjarasamningi. Þeir unnu málið og fengu akstur á ný. En enginn annar. Ég er félagsliði og þar með varð ég nú að sjá um minn akstur sjálf. Oft er ég á sömu vakt og stöllur mínar og það gerist því að ég fæ að sitja í hjá þeim og allt gott um það að segja. En eitt sinn varð mér á í messunni. Kemur það ekki fyrir okkur stundum? Ég gáði á vaktatöfluna og sá að bíll mundi fara til að sækja konu á næturvakt en ég átti að fara á morgunvakt. Ég hringdi og spurði stúlkuna á leigubílastöðinni hvort hann mundi kannski geta leyft mér að sitja í á leiðinni til að sækja næturvaktina. Það reyndist ekkert mál og ungur maður með bros á vör sagði að þetta væri í besta lagi, þegar ég spurði hann um leið og ég settist í bílinn. Svo leið vaktin og leigubíll kom með konu á kvöldvakt og hinkraði við eftir mér sem kom út tvær mínútur yfir lokatíma vaktar. En hann hafði beðið um stund vegna þess að hann var fremur snemma í því og var orðin argur og pirraður á að þurfa að bíða eftir mér. Hann upphóf því gagnrýni á meinta misnotkun mína á að fá að sitja í bílnum til baka. Ég reyndi að verja mig og sagði að ungi maðurinn sem ekið hefði með mig um morguninn hefði sagt að þetta væri ekkert mál. "Já hann hefur bara látið plata sig" svaraði hinn pirraði leigubílstjóri og var þungt í honum. Hann hélt áfram að argast yfir þessu og talaði um að hann hefði getað hugsanlega fengið túr strax eftir að hafa skilað af sér farþeganum í stað þess að bíða eftir mér. Mér er spurn af hverju var hann að bíða eftir mér , fyrst honum bar engin skylda til þess að aka mér heim? Fyrst þetta var svona mikið stórmál, hvað var hann þá að taka mig með? Eftir smástund fór mér að sárna verulega og ég sagði honum að mér líkaði ekki þessi tónn og hann skyldi bara stöðva bílinn og setja mig út þarna á miðri leið. Ég kærði mig ekkert um svona ásakanir og leiðindi og hann skyldi bara reyna að fá sér þennan túr, ég sæi um mig sjálf og svo skellti ég hurðinni um leið og ég fór út úr bílnum. Ekki af neinu svaka afli, en skellti samt. Hann skrúfaði niður rúðuna og "þakkaði" mér fyrir að eyðileggja bílinn sinn. Ég svaraði sárreið til baka að ég hefði ekkert eyðilagt bara skellt hurðinni. Hann hrópaði þá um leið og hann fór "Guð blessi þig". Já það er nú svo. Hvað meinti hann með því? Því framhaldið er ekki í samræmi við það. Ég fékk manninn minn til að sækja mig og fór beint niður á skrifstofu þeirrar stofnunar sem ég vinn hjá. Ég var enn reið og sár, þó mest fyrir að vera ásökuð um að reyna að plata saklausan mann til að taka mig með um morguninn. Ég hafði ekkert slíkt í huga og legg ekki í vana minn að plata fólk yfirleitt. Ég ræddi við starfsmannastjóra sem skýrði fyrir mér að svona væri þetta, aðeins sjúkraliðar hefðu akstur, sem ég reyndar vissi, og einnig að það væri alfarið í valdi bílstjóranna hvort við hinar fengjum að fljóta með. Jú ég skildi það. Og líka það að sem sagt bílstjórarnir hefðu lokaorð um hvort þeir tækju aðra með sem vinna á téðum stað þegar þeir eru hvort sem er að aka með sjúkraliða. Skömmu eftir að þessi leiðindaatburður átti sér stað hitti ég á umræddan bílstjóra og gekk að bílnum og rétti honum hönd til sátta og baðst afsökunar á að hafa skellt bílhurðinni í sárindum mínum. Hann tók vel í það og fór að útskýra málin og einnig það að þegar sjúkraliðar væru á vakt og fengju akstur þá væri allt í lagi að fá að vera með. Ég sagðist gera mér grein fyrir því og þekkti vel reglurnar. Ég stóð í þeirri meiningu að allt væri orðið gott á milli okkar og mér fyrirgefið, ekki síst eftir að hann hafði jú kastað á mig "blessun Guðs" við síðustu samskipti okkar. En núna, þegar veður er hættulega hvasst og ég á að fara á kvöldvakt ásamt tveim sjúkraliðum, sem fá akstur. Hvað gerist þá? Ég er ekki að ýkja, það komu aðvaranir í útvarpinu núna áðan um hvassviðri á Reykjanesbrautinni. Þá er nú gott að sitja í bíl með öðrum og hafa vanan bílstjóra. En þegar ég hringdi til að vita hvort ég mætti sitja í og hitti þá á þennan fyrrum "vin" minn, þá var svarið "nei". "Ertu að grínast"? spurði ég,"nei" svaraði hann. Nú spyr ég hvar var þessi fyrirgefning og sátt? Ég tek það aftur fram að ég sagði ekkert dónalegt við hann, sparkaði EKKI í bílinn hans, ég sagði bara að hann skildi setja mig út og ná sér í túr. En svona er nú lífið. Hvað dugði að rétta fram hönd og biðjast afsökunar á sínum tíma. Hvað meinti hann með "blessun"sinni? Og það segi ég satt að hann hefur ekki þurft að fyrirgefa mér nema einu sinni en eigum við ekki að fyrirgefa aftur og aftur, það sagði Kristur að minnsta kosti er hann svarði spurningu lærisveina sinna varðandi hversu oft þeir ættu að fyrirgefa. Hvað er þá fyrirgefning? Er hún bara í orði en ekki í verki? Hvernig fyrirgefum við í dag. Getum við fyrirgefið "hrunið"? Getur það gert okkur betri? Ég fer í vinnuna mína í dag á eigin bíl og bið Guð að vernda mig í vondu veðri. Ég bið Guð líka um að taka burt sárindin sem komu eftir þetta "neikvæða" símtal. Nú þarf ég að geta fyrirgefið skort manns á raunverulegri blessun og fyrirgefningu. Aðeins Guð getur gefið mér vilja til þess, ég er ekki svo fullkomin að hafa það innbyggt. Skammdegisþunglyndi gerir það ekki léttara, það er svo þunnur strengur sem heldur manni stundum uppi. En Guð huggar og gefur vit og vilja. Ég sendi ykkur öllum bestu óskir um vilja til að fyrirgefa náunga ykkar, aftur og aftur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
10.12.2009 | 12:41
Lesið í Jesaja spámanni
Ég byrjaði daginn með að mála einn vegg bláan og sest nú niður við bloggið eftir að hafa lesið smávegis í Jesaja spámanni sem kom mér heldur betur til að hugsa. Þessi merkilegi spámaður sem 600 árum fyrir Krist spáði um Jesú, fæðingu hans, fórn hans á krossi og allt annað sem síðar kom svo fram nákvæmar en hægt er að hunsa eða láta sem skipti ekki máli. En mér kom einnig í hug að nú þegar í hönd fer sá tími sem margir týna sér í veraldlegu lífsgæðakapphlaupi, sækjast eftir að njóta allslags gæða sem kaupa má í búðum og halda hátíð mikla með tilheyrandi skrauti og íburði. Þá er því miður það innihald sem kristnir telja sig hafa gefið þessari ártíð oft varla nema á yfirborðinu. Jesús fæddist vissulega ekki á þessum árstíma og hvergi er minnst á það að halda eigi upp á fæðingu hans, en þessum sið var komið á og átti að vera sameiginlegur kristnum til að minnast fæðingar frelsarans. En það er eins og svo margt sem menn taka upp á og er ekki boðað af Guði né fyrir um mælt, það þynnist út og fer óneitanlega að hafa á sér yfirbragð hjáguðadýrkunar og græðgi. Mér er sama hvort við höfum "kókakóla" jólasveina eða druslulega íslenska kotkarlasveina, allt er þetta óttalegur hégómi til þess eins að leiða athyglina frá hlutum sem raunverulega hafa gildi. Menn eru svo afvegaleiddir í trú og sannleika að varla er möguleiki að sýna þeim framá hvað heilög Ritning segir. Það stendur skýrt í þeirri bók, svo tekið sé dæmi, að dánir sofa, þeir fara ekki neitt, vita ekki neitt. Þeir sofa þar til er Guð vekur upp dána fyrir frelsarann sem kemur aftur í fyllingu tímans. Við viðurkennum þetta í trúarjátningu kirkjunnar, "Og mun þaðan koma að dæma lifendur og dauða", eru þetta meiningarlaus orð eins og svo margt annað sem nú er viðhaft? Já það mætti skrifa langan pistil um þessi mál og margir mundu æsa sig upp og telja þetta ofsatrúaráróður. En það gerir ekkert til, ég hef fundið mitt traust á skapara mínum og treysti honum. En til fróðleiks og umhugsunar set ég hér beina tilvitnun úr áðurnefndum Jesaja.
Guð einn 6Svo segir Drottinn, konungur Ísraels og frelsari, Drottinn allsherjar: Ég er hinn fyrsti og ég er hinn síðasti, og enginn Guð er til nema ég. 7Hver er sem ég - hann segi frá því og sanni mér það - frá því er ég hóf hina örgömlu þjóð? Látum þá kunngjöra hið ókomna og það sem verða mun! 8Skelfist eigi og látið eigi hugfallast. Hefi ég ekki þegar fyrir löngu sagt þér það og boðað það? Þér eruð vottar mínir: Er nokkur Guð til nema ég? Nei, ekkert annað hellubjarg er til, ég veit af engu öðru.
Háðyrði um hjáguðadýrkun 9Þeir sem búa til goðalíkneski, eru hver með öðrum hégóminn einber, og dýrindissmíðar þeirra eru að engu liði. Vottar slíkra guða sjá eigi og vita eigi, til þess að þeir verði sér til skammar. 10Hver hefir myndað guð og steypt líkneski, til þess að það verði að engu liði? 11Sjá, allir dýrkendur þess munu til skammar verða. Og smiðirnir, þeir eru þó ekki nema menn, - látum þá alla safnast saman og ganga fram, þeir skulu skelfast og til skammar verða hver með öðrum. 12Járnsmiðurinn myndar egg á öxina, tekur hana fram við glóð og lagar hana með hömrunum. Hann býr hana til með hinum sterka armlegg sínum. En svelti hann, þá vanmegnast hann, fái hann ekki vatn að drekka, lýist hann. 13Trésmiðurinn strengir mæliþráð sinn og markar fyrir með alnum, telgir tréð með hnífum og afmarkar það með sirkli. Og hann býr til úr því mannlíkan, fríðan mann, til þess að búa í húsi. 14Hann heggur sér sedrustré, tekur steineik eða eik og velur um meðal skógartrjánna. Hann gróðursetur furutré, og regnskúrirnar koma vexti í þau. 15Og maðurinn hefir tréð til eldiviðar, hann tekur nokkuð af því og vermir sig við, hann kveikir eld við það og bakar brauð, en auk þess býr hann til guð úr því og fellur fram fyrir honum. Hann smíðar úr því skurðgoð og knékrýpur því. 16Helmingnum af trénu brennir hann í eldi. Við þann helminginn steikir hann kjöt, etur steik og verður saddur; hann vermir sig og segir: "Æ, nú hitnar mér, ég sé eldinn." 17En úr afganginum býr hann til guð, skurðgoð handa sér. Hann knékrýpur því, fellur fram og gjörir bæn sína til þess og segir: "Frelsaðu mig, því að þú ert minn guð!"
18Þeir hafa hvorki skyn né skilning, augu þeirra eru lokuð, svo að þeir sjá ekki, og hjörtu þeirra, svo að þeir skynja ekki. 19Og þeir hugleiða það eigi, þeir hafa eigi vitsmuni og skilning til að hugsa með sér: "Helmingnum af því brenndi ég í eldi, ég bakaði brauð við glæðurnar, steikti kjöt og át; og svo ætti ég að fara að búa til andstyggilegt líkneski af því, sem afgangs er, og falla á kné fyrir trédrumbi!" 20Þann mann, er sækist eftir ösku, hefir táldregið hjarta leitt afvega, svo að hann fær eigi borgið lífi sínu. Hann segir ekki við sjálfan sig: "Er það ekki svikatál, sem ég held á í hægri hendi minni?"
Já ég mæli með að fólk lesi í Jesaja frá 41. kafla allavega og áfram út 44.kafla. Það er umhugsunarefni. Á hvað trúa börn í dag? Jú mjög mörg trúa á jólasveininn og setja skóinn út í glugga. Ósköp sætt og meinlaust en því miður er oft lítið annað með, engin Jesús sem elskar og kennir kærleika og réttlæti. Ef ekki væri langt komið með að ryðja kristni út úr skólum væri kannski von fyrir þá sem eru í vandræðum með grunnviðmið í siðfræði. Það kynni að vera hægt að kenna út frá kristnum kærleiksgildum hversvegna einelti er algjörlega óásættanlegt. En nei, mennirnir vilja eiga allan heiður af siðfræði og finnst fínna að vitna í illskiljanlega heimspeki sem að sumu leyti var skrifuð af stórundarlegum furðufuglum, sem nú til dags hefðu jafnvel verið taldir vafasamir. Rétt eins og þegar Darvin kom fram með sínar kenningar, sem hann sjálfur var jafnvel ekki alveg öruggur með. Það var látið eins og stóri sannleikurinn væri fundinn og síðan hefur hægt og örugglega öllu tali um sköpun verið ýtt út og telst í besta falli barnaskapur að trúa slíku í dag. Vísindamenn með feita styrki geta í eyður sem eru stærri en bankahrunið, setja saman beinagrindur úr einni lítilli flís og fullt af hugmyndum. Minnir mig oft á nýju fötin keisarans. Og allt þetta sá Guð fyrir að mundi verða þegar maðurinn fór að líta svo stórt á sjálfan sig. Já hvað gerist þegar maðurinn fer að líta of stórt á sjálfan sig? Góð spurning. Hann fer að heimta ofurlaun fyrir ímyndaða "ofurábyrgð", hann fer að stinga undan öllu sem hann getur komið höndum yfir og liggja á því eins og Jóakim önd. Hann tapar sér í að fá meira og meira en gleymir þeim sem þjást. Hvar stendur þetta eiginlega?Jú mikið rétt í 2. Tímóteusbréfi. 3. kafla." Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. 2Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, 3kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, 4sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðar fullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. 5Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!
Ég læt þetta nægja að sinni. En óska öllum þess að minnast þess að við erum smá og máttvana þegar náttúran lætur af sér vita og eitthvað meiriháttar fer í gang. Ofurlítil auðmýkt og hugsun um þann sem öllu ræður, getur ekki skaðað. Farið varlega í kapphlaupinu og leitið hans ríkis og réttlætis núna.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Þórdís Ragnheiður Malmquist
Tenglar
Mínir tenglar
- Boðunarkirkjan Kirkja sem boðar Guðs orð óbreytt og heldur Hvíldardag Guðs þann sem hann helgaði, 7. daginn. Er í Hlíðarsmára 9 3hæð.
- Boðunarkirkjan Sjálfstæð kristin kirkja sem heldur hvíldardag Guðs
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (6.11.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar