19.11.2009 | 22:30
Bráðum koma blessuð jólin?
Hef ekki gefið mér tíma til að blogga svo ósköp lengi og ákvað að setja smá hugrenningar inn núna. Skammdegið fer ekki vel í mig nú fremur en oft áður. Ástandið í þjóðfélaginu lagar það heldur ekkert. Ósjálfrátt hugsar maður til þeirra sem hafa það verulega erfitt og það er ekki létt að vera sátt með allt sem gerst hefur á rúmu ári. Við hjónin byggðum húsið okkar fyrir nokkrum árum og vorum bjartsýn. Ekki stórt hús og engan íburð, bara þægilegt hús fyrir okkur sem við ætluðum svo að selja síðar og fara í þjónustuhúsnæði. Já við erum nefnilega rúmlega miðaldra og næsta ár er minn maður löggildur sem ellilífeyrisþegi en ég á þá sjö ár eftir í það. Við héldum líka í fyrra að við mundum geta haft það þokkalegt í ellinni. Já ég hélt að við gætum farið suður í sólina smástund á vetrartíðinni til að fá smábirtu í kroppinn og hressa upp sálartetrið. Nú eru það víst bara þeir sem eiga "auðinn" sem geta leift sér að hugsa svoleiðis. Jú og þeir sem hafa alltaf átt sína fasteign og ekki misst maka eða staðið í skilnaði. Því allt slíkt setur strik í reikninginn. Við hjón rugluðum saman reitum fyrir nokkrum árum, hann ekkjumaður, ég löngu fráskilin. Ég keypti gamla íbúð og við gerðum hana upp, á meðan við byggðum húsið okkar. Seldum svo fína nýuppgerða íbúð og áttum smá til að setja upp í kostnað á húsbyggingunni. Svo tókum við uppá að gifta okkur og þá urðum við að greiða út móðurarf til barna mannsins míns. Það var svo sem hið besta mál en við gættum ekki að einu. Við vorum komin langt með byggingu nýja hússins og það hækkaði alltaf að verðgildi. Þar með hækkaði arfurinn. Vissulega gott og blessað en áður en við vissum af þurftum við að fá meira lán til að klára húsið því nokkrar miljónir af húsnæðisláninu fóru í að greiða út arfinn. Svo við tókum 4 millur í erlendum. Já og svo vitið þið framhaldið. Ég freistaðist líka til að taka við bíl hjá elskulegum syni mínum, góður og sparneytinn bíll á körfuláni. Aðeins 2,6 eftir, 46 þús á mánuði og lágir vextir. já, já gott mál ég sló til. Nú kostar hann eða lánið 4,8 og afborganir, jú ég gat með naumindum fengið að halda mig við 60 þús, í greiðslur á mánuði. Ég fékk engar launahækkanir fremur en aðrir og á ekki kröfu í þrotabú bankanna vegna "ábyrgðar" minnar í bankamálum. Engin ofurlaun við að hjúkra öldruðum. Svo nú sit ég hér og spyr sjálfa mig, mun birta til með hækkandi sól eða verður enn meiri örvænting. Hvernig geta sumir fyrrverandi bankastarfsmenn bara setið og haldið til streitu kröfum um "umsamin" laun og eftirlaun eða uppsagnarlaun á meðan öll þjóðarskútan og bankarnir eru líkt og Títanik forðum, á leiðinni niður á botn. Ég fékk ekki greidd umsamin laun, neitaði mér um þau með þjóðarsátt. Hvar eru þessir menn staddir í tilverunni. Þeir eru varla að farast úr peningaleysi í bili. Og hvernig er hægt að greiða út arð úr tómu búi? Ég bara spyr. Þegar við greiddum út arfinn, tókum við af lánsfé og það kom svo aftan að okkur síðar. Við vorum ekki nægilega aðhaldssöm og gætin. Leifðum okkur að fara í heimsókn til útlanda að heimsækja börnin, það kostar sitt. Já við vorum bara bjartsýn og héldum að það sem var viðráðanlegt þá, yrði svoleiðis áfram. Ég vona að þeir sem eiga svo margfalt meira en þeir þurfa til að lifa sómasamlegu lífi, sjái nú heiður sinn í því að axla eitthvað að þeim byrðum sem við meðal og láglauna fólk höfum þurft að taka á okkur hingað til. Það er kominn tími til. Í 3. kafla síðara Tímóteusarbréfs getur að líta þessi orð: 1 Vita skalt þú þetta, að á síðustu dögum munu koma örðugar tíðir. 2Mennirnir verða sérgóðir, fégjarnir, raupsamir, hrokafullir, lastmælendur, foreldrum óhlýðnir, vanþakklátir, vanheilagir, 3kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er, 4sviksamir, framhleypnir, ofnmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð. 5Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!
Finnst ykkur þetta ekki merkilegt í ljósi núverandi kringumstæðna?. Jæja ég er búin að rasa út í bili og gleymdi myrkrinu um stund. Í nótt fer ég að vinna við að sinna þeim sem liggja oft vakandi vegna verkja eða veikinda af alvarlegum toga. Þetta fólk sem við vonuðum að mundi geta fengið einkaherbergi á þjónustustofnum okkar og fengið svefnfrið fyrir misgóðum stofufélögum. Fengið að hafa svolítið notalegt í kring um sig og gert umhverfið persónulegt. En nú verðum við að spara og spara. Passa að nota ekki mikið af dýrum stykkjum eða öðru sem má komast af með í minna mæli. Við höfum strítt við bilanir í vatnskerfinu hjá okkur og stundum er eilífðartíma að renna í baðkarið og maður má þakka fyrir að geta baðað þá sem þarf að baða á þeim tíma sem ætlaður er til þess. Og að lyfta þeim blessuðum. Jú ef ekki væru til öll þessi félög sem gefa tæki til slíkra hluta, já þá værum við margar orðnar sjálfar öryrkjar vegna of mikils álags á axlir og bak, svo mikið er víst. En þeir sem þola ekki að hafa minna en milljón eða enn meira á mánuði eru varla að hugsa um þetta. Þeir kæmu aldrei nálægt því að sinna svona gömlu og veiku fólki. það gefur svo lítið í aðra hönd. En auðvitað vilja þeir að þeirra eigin hafi það gott í ellinni. Og það finnast leiðir til þess. Það er bara fyrir þá útvöldu og kostar mikla peninga. Samábyrgð er eitthvað sem þessu fólki virðist vonlítið að skilja. Þú átt að gæta bróður þíns og þú átt að deila með þér ágóða þínum. Þú átt að hjálpa fátækum og ekkjum og gæta þeirra munaðarlausu. Ég bið Guð að blessa þá sem slíkt gjöra og koma vitinu fyrir þá sem hafa gleymt sér í græðgi og kapphlaupi um að eiga flottasta sumarbústaðinn og dýrasta bílinn. Það er löngu komið nóg. Munið líka að það er engin skylda að halda jól með miklum tilkostnaði, Jól voru fundin upp af mönnum og þróuð af þeim. Jesús hélt engin jól, hann gerði bara góðverk. Við þurfum ekki að spenna bogan svona hátt og farast úr kvíða yfir kortaskuld og þess háttar. Hættið að dansa með kaupmennskuhrunadansinum. Þökkum fyrir líf og heilsu ef við getum og styðjum við þá sem ekki njóta slíks. Slakið á og njótið samveru með þeim sem kunna að meta það að þú/þið viljið vera bara til staðar. Hittið barnabörnin oftar þið sem hafið sjaldan tíma og heimsækið gamla fólkið sem sumt virðist gleymast inni á öldrunarstofnun. Lifið heil.
Um bloggið
Þórdís Ragnheiður Malmquist
Tenglar
Mínir tenglar
- Boðunarkirkjan Kirkja sem boðar Guðs orð óbreytt og heldur Hvíldardag Guðs þann sem hann helgaði, 7. daginn. Er í Hlíðarsmára 9 3hæð.
- Boðunarkirkjan Sjálfstæð kristin kirkja sem heldur hvíldardag Guðs
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 1
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 1
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Kæra Þórdís.
Því miður eru margir í sömu stöðu og þið.
"Ungur var ég og gamall er ég orðinn, en aldrei sá ég réttlátan mann yfirgefinn né niðja hans biðja sér matar. Ætíð er hann mildur og lánar, og niðjar hans verða öðrum til blessunar." Sálmur 37. 25.-26.
Megi almáttugur Guð miskunna þessari þjóð.
Megi almáttugur Guð hjálpa ykkur.
Kær kveðja/Rósa
Rósa Aðalsteinsdóttir, 25.11.2009 kl. 22:41
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.